Kvikmyndin var fyrsta listformið sem grundvallaðist alfarið á nútímatækni, enda var henni upphaflega tekið sem tækniundri eða vísindatæki, fremur en listformi. Þá þótti form kvikmyndarinnar og tæknileg umgjörð kallast með býsna sérstæðum og knýjandi hætti á við upplifun fólks af breyttum lifnaðarháttum í nútímanum.
Með tilkomu samskiptamiðla og stafrænnar tækni hefur myndmiðlun af ýmsu tagi jafnframt tekið stakkaskiptum. Ungt fólk er ekki aðeins neytendur heldur einnig framleiðendur myndefnis, og myndefnið sjálft hefur umbreyst í samskiptaform. Af þessum sökum hefur mikilvægi myndlesturs, kvikmyndarýni og ímyndatúlkunar aukist á fyrstu áratugum nýrrar aldar.
Þessi sögulega breidd endurspeglast og er tekin til umfjöllunar á málþinginu „Samtímarannsóknir í kvikmyndafræði“, sem haldið er árlega á vegum kvikmyndafræði Háskóla Íslands. Litið er um öxl og horft er til framtíðar, fjallað er jöfnum höndum um íslenska kvikmyndamenningu og erlenda, en málþinginu er fyrst og fremst ætlað að kynna íslenskar kvikmyndarannsóknir með því að leiða saman fræðimenn og áhugafólk um kvikmyndir og kvikmyndasögu.