Heimildameðferð, tilvísanir og frágangur KvikmyndafræðinnarVið vísun til heimilda er notuð samsett tilvísana- og heimildaskrá. Í þessu kerfi er ekki nauðsynlegt að vera með heimildaskrá í lokin nema í undantekningartilvikum. Allar bókfræðilegar upplýsingar um verkið sem vitnað er til eru gefnar í númeruðum neðanmálsgreinum (þegar fyrst er minnst á verkið). Hér að neðan eru viðmiðunarreglur. Um aðrar gerðir, s.s. tilvísanir í skjöl, viðtöl og vefsíður, skal gæta samræmis.

1. Þegar vitnað er til bókar (mónógrafíu) í fyrsta sinn:


Nafn höfundar, bókartitill, útgáfustaður: forlag, útgáfuár, blaðsíða/ur sem vitnað er til. Dæmi: Patricia Gherovici, Please Select Your Gender: From the Invention of Hysteria to the Democratizing of Transgenderism, London og New York: Routledge, 2010, bls. 132.

2. Þegar vitnað er til greinar í bók í fyrsta sinn:


Nafn höfundar, „greinartitill“, bókartitill, ritstjóri og/eða þýðandi, útgáfustaður: forlag, útgáfuár, heildarblaðsíðutal greinar, blaðsíða/ur sem vitnað er til.

Dæmi: Louis Althusser, „Hugmyndafræði og hugmyndafræðileg stjórntæki ríkisins (rannsóknarpunktar)“, Af marxisma. Afbók #6, þýð. Egill Arnarson, ritstj. Magnús Þór Snæbjörnsson og Viðar Þorsteinsson, Reykjavík: Nýhil, 2009, bls. 175-228, hér bls. 189-190.

3. Þegar vitnað er til tímaritsgreinar í fyrsta sinn:


Nafn höfundar, „greinartitill“, heiti tímarits árgangur: hefti/útgáfuár, ritstjóri/þýðandi, heildarblaðsíðutal greinar, blaðsíða/ur sem vitnað er til.

Dæmi: Björn Ægir Norðfjörð, „Hvað er heimsbíó“, Ritið 2/2010, bls. 9-34, hér bls. 15–19.

4. Þegar vísað er aftur í rit:


a) Ef tilvísun í sama rit kemur í beinu framhaldi:

Sama rit, blaðsíða/ur sem vitnað er til.

Dæmi: Sama rit, bls. 100.

b) Ef tilvísun í sama rit kemur síðar í grein:

Nafn höfundar, Bókartitill (má stytta ef langur), blaðsíðutal.

Dæmi: Iain McCalman, Radical Underworld, bls. 44.

Höfundur, „Greinartitill (má stytta ef langur),“ blaðsíðutal.

Dæmi: Björn Ægir Norðfjörð, „Hvað er heimsbíó“, bls. 30-32.

Ef augljóst er af samhengi í hvaða rit er verið að vísa dugar blaðsíðutal innan sviga í meginmáli (bls. 22).

5. Að vitna í rafrænar heimildir:


Nafn höfundar, „titill greinar“, nafn vefsíðu, ártal greinar ef við á, sótt dagsetning og ártal af http://vefslóð

Dæmi: Gunnar Kristjánsson, „Trúmaður á tímamótum“, Tru.is, 30. nóvember 2011, sótt 20. febrúar 2012 af http://tru.is/pistlar/2011/11/trumadur-a-timamotum.

6. Frágangur á kvikmyndatitlum:


Þegar kvikmynd er fyrst kynnt til sögunnar ber að rita eftirfarandi upplýsingar:

Skáletraður titill (ártal, leikstjóri);
Englar alheimsins (2000, Friðrik Þór Friðriksson);

Hilmar Örn Hilmarsson samdi einnig tónlistina í Englum alheimsins (2000, Friðrik Þór Friðriksson) og sem fyrr…

Ef um er að ræða titil á ensku og dönsku (og í sumum tilfellum norsku, sænsku, þýsku og frönsku) sem ætti að vera flestum íslenskum lesendum skiljanlegur á frummálinu þarf ekki að þýða hann:

Jaws (1975, Steven Spielberg);
Brødre (2004, Susanne Bier)

Ef um er að ræða titil á öðru tungumáli verður að þýða hann á íslensku (og alls ekki nota enska þýðingu líkt og Seven Samurai), og birtist þá frummálið aftast í sviganum:

Sjö samúræjar (1954, Akira Kurosawa, Shichinin no samurai);
Dauði Hr. Lazarescu (2005, Cristi Puiu, Moartea domnului Lazarescu)

Óþarft er þó að þýða titla sem byggja á nöfnum (staða, manna eða annarra vera) eða hefð hefur skapast fyrir að rita á frummálinu og ættu að vera flestum kvikmyndaunnendum kunnir:

Rashomon (1950, Akira Kurosawa);
Belle de jour (1954, Luis Buñuel)

Athugið að ef upplýsingar um leikstjóra koma fram í meginmáli þá á ekki að endurrita þær innan sviga:
Í stórmynd Stevens Spielberg frá árinu 1975 Jaws er að finna hungraðan hákarl…

Athugið sérstaklega: Ef þorri titla í ritgerðinni birtist á íslensku er betra og áferðarfallegra að þýða alla titla á íslensku.

Ókindin (1975, Steven Spielberg, Jaws)

Munið að ítarupplýsingar eiga aðeins að birtast þegar myndin er nefnd í fyrsta skipti, eða tekin til eiginlegrar umræðu í fyrsta skipti (fylgja verður annarri hvorri aðferðinni í ritgerðinni allri).

Hugið vel að stafsetningu titla og athugið að þótt í ensku séu öll orð önnur en stutt smáorð og greinir rituð með stórum upphafsstaf þá er því sjaldnast svo farið í öðrum tungumálum:

Englar alheimsins;
Belle de jour

En á ensku:

Indiana Jones and the Kingdom of the Crystal Skull;
Dr. Strangelove or: How I Learned to Stop Worrying and Love the Bomb 

Á þýsku eru nafnorð alltaf rituð (ekki bara í titlum) með stórum staf:

Der amerikanische Soldat

Ef nemendur eru í óvissu um stafsetningu titla er vefsíðunni www.imdb.com yfirleitt treystandi.

7. Kvikmyndaskrá


Ekki er nauðsynlegt að útbúa kvikmyndaskrá fyrir styttri ritgerðir en í lengri textum líkt og BA-ritgerðum þar sem vitnað er í fjölda kvikmynda getur slík skrá komið að góðum notum.

Kvikmyndaskrá getur annað hvort verið tæmandi þar sem skráðir eru allir titlar sem nefndir eru á nafn eða takmarkast við þær kvikmyndir sem fjallað er um með eiginlegum hætti og skal það þá tekið fram (t.d. Kvikmyndaskrá helstu titla).
Kvikmyndum er raðað í stafrófsröð eftir leikstjórum. Titlar eru ritaðir eins og þeir birtast í ritgerðinni.

Skrá skal eftirfarandi:

Leikstjóri, Skáletraðaður titill, framleiðslufyrirtæki, þjóðland ártal;
Ágúst Guðmundsson, Með allt á hreinu, Bjarmaland, Ísland 1982.

Ef um þýddan titil er að ræða ber að aðgreina með skástriki:

Spielberg, Steven, Ókindin/Jaws, Universal, Bandaríkin 1975.

Ef um mörg framleiðslulönd og/eða framleiðslufyrirtæki er að ræða skal skrá helstu tvö eða þrjú löndin/fyrirtækin:

Von Trier, Lars, Antichrist, Zentropa/Film i Väst/Arte, Danmörk/Svíþjóð/Frakkland
2009.

Að öðru leyti vísast til umsagnar um frágang titla.

8. Myndrammar


Ef notast er við myndaramma úr kvikmyndum á að merkja þá í númeraröð (Mynd 1; Mynd 2; Mynd 3) og svo framvegis. Ef notast er við myndatexta kemur hann í framhaldi:

Mynd 8. Scottie (James Stewart) klæðir Judy Barton (Kim Novak) upp sem Madeleine.

Í meginmáli skal vísað til myndbirtingarinnar innan sviga (helst í lok setningar).

…svipaða áráttu má einnig finna hjá Scottie í Vertigo (mynd 8).

Ef um fleiri myndaramma er að ræða er best að vísa til þeirra á eftirfarandi hátt:

…líkt og fjöldamörg sjónarhornsskot Scottie eru dæmi um (myndir 9-12).

Myndaramma er auðvelt að fanga með spilaranum „VLC media player“ sem má nálgast án endurgjalds á síðunni: http://www.videolan.org/vlc/index.html.