Vor 2018


KVIKMYNDASAGA (10 ein.)

Yfirlit yfir sögu kvikmyndalistarinnar frá upphafi hennar undir lok 19. aldar til okkar daga. Áhrifaríkustu stefnur hvers tíma verða skoðaðar og lykilmyndir sýndar. Nemendur kynnast sovéska myndfléttuskólanum (montage), franska impressjónismanum, þýska expressjónismanum, stúdíókerfinu bandaríska, ítalska nýraunsæinu, japanska mínímalismanum, frönsku nýbylgjunni, þýska nýbíóinu, suður-ameríska byltingabíóinu og Hong Kong-hasarmyndinni svo eitthvað sé nefnt, og reynt verður að bera þessar ólíku stefnur saman. Lögð verður áhersla á að skoða fagurfræðilega þróun kvikmyndarinnar sem og samtímaleg áhrif á útlit og inntak hennar. Námsmat byggist á tveimur prófum.

Kennarar eru Bjarni Randver Sigurvinsson, Guðrún Elsa Bragadóttir og  Björn Þór Vilhjálmsson.


KONUR, MINNIHLUTAHÓPAR OG ÞJÓÐFÉLAGSGAGNRÝNI: KVIKMYNDIR FRÁ MENNINGARSVÆÐUM MÚSLIMA (10 ein.)

Múslimar eru um fjórðungur mannkyns og í verulegum meirihluta í fjölda ríkja Norður-Afríku, Mið-Austurlanda og Suður-Asíu. Fjölbreytt kvikmyndagerð hefur verið í miklum blóma í mörgum þessarra landa til fjölda ára en er ný af nálinni í ýmsum öðrum. Rakin verður saga kvikmyndagerðar í þessum löndum og helstu þemu og stef greind með hliðsjón af menningarsögulegum bakgrunni þeirra, trúarbrögðum, bókmenntum, stjórnmálum og fræðilegum kenningum og flokkunarkerfum innan m.a. kvikmyndafræði og trúarbragðafræði. Sjónum verður sérstaklega beint að kvikmyndagerðarmönnum í þremur löndum, Tyrklandi, Egyptalandi og Íran. Áherslan er á leiknar kvikmyndir á borð við spennumyndir, hryllingsmyndir, gamanmyndir, íslamskar biblíumyndir, rómantík og raunsæisdrama en einnig verður vísað til heimildarmynda og tónlistarmyndbanda (svo sem með Haifu Wehbe og Shams al-Aslami).  

Kennari er Bjarni Randver Sigurvinsson


KONUR, KRIMMAR OG KVIKMYNDIR (10 ein.) (val)

Í þessu námskeiði lesa nemendur fjórar glæpasögur eftir bandaríska kvenhöfunda á borð við Patricia Highsmith og Vera Caspary sem sett hafa mark sitt á kvikmyndasöguna. Sögurnar eiga það allar sameiginlegt að hafa verið gerðar að kvikmyndum sem við munum skoða samhliða bókunum í ljósi aðlögunar kenninga samtímans.

Kennt er á ensku.
Kennari er Lára Marteinsdóttir


KÖLTMYNDIR, ENDURTEKNINGAR OG HEILAGAR HEFÐIR (5 ein.)

Á meðan sumir fræðimenn telja merkingu költhugtaksins útþynnta með of almennri notkun og markaðsvæðingu fyrirbærisins eru aðrir sem leitast við að skilgreina merkingu þess á máta sem hægt er nýta í fræðilega umræðu. Í námskeiðinu verður kafað djúpt í tvær költmyndir og þær greindar á þann eina veg sem költmynd á skilið, með endurteknu áhorfi. Til að skilja hin djúpstæðu tengsl áhorfanda, kvikmyndar og hefða verða aðeins tvær kvikmyndir sýndar í námskeiðinu en hvor um sig sýnd í fimm skipti. Myndirnar sem um ræðir koma úr afar ólíkum afkimum költmenningar og saman ættu þær að gefa greinargóða og yfirgripsmikla sýn á þann heim sem költmyndir skapa aðdáendum sínum.

Fyrstu fimm vikur námskeiðsins verður kvikmyndin ,,Eraserhead“ eftir David Lynch tekin fyrir og textar lesnir um hana, upphaf miðnæturmynda og framkomu költs í kringum kvikmyndir. Næstu fimm vikur námskeiðsins verða helgaðar hinni ókrýndu verstu mynd allra tíma, ,,The Room.“ 

Kennari er Gunnar Tómas Kristófersson


ÞÝSKAR KVIKMYNDIR (5 ein.) (val)

Þýsk kvikmyndasaga er gríðarlega rík og spannar þrjár aldir, þar á meðal einhver erfiðustu tímabil í sögu þjóðarinnar. Í námskeiðinu verður farið skilmerkilega yfir þýska kvikmyndasögu og mikilvægustu áföngum kvikmyndagerðar Þýskalands gerð skil. Sérstök áhersla verður lögð á samfélagsleg málefni kvikmyndanna, en kvikmyndin hefur fylgt hinum miklu umbrotum þýskrar sögu 20. aldarinnar vel eftir og hafa Þjóðverjar verið óhræddir við að takast á við erfið málefni í gegnum kvikmyndamiðilinn. Farið verður í saumana á því hvernig kvikmyndamiðlinum hefur verið beitt, bæði í áróðursskyni sem og til beittrar gagnrýni, hvernig kvikmyndir endurspegla tíðaranda og hafa áhrif á sýn Þjóðverja á eigin sögu.

Kennari er Gunnar Tómas Kristófersson


KVIKMYNDAKENNINGAR (10 ein.)

Námskeiðið er hugsað sem ítarlegt sögulegt yfirlit yfir helstu kenningar kvikmyndafræðinnar allt frá upphafi til dagsins í dag. Lesnar verða kenningar frumherja á borð við Sergei Eisenstein, Rudolf Arnheim, Siegfried Kracauer og André Bazin. Tekin verða fyrir margvísleg og róttæk umskipti í nálgun kvikmynda á seinni hluta tuttugustu aldar, líkt og formgerðargreining, marxísk efnistúlkun, sálgreining og femínismi. Loks verða áhrif menningarfræðinnar rædd með áherslu á kynþætti og skoðuð staða kvikmyndarinnar á tímum hnattvæðingar. Kvikmyndir námskeiðsins munu endurspegla margbreytileika lesefnisins enda er þeim ætlað að draga fram sérstöðu ólíkra kenninga.

Kennari er Björn Þór Vilhjálmsson


WEIMAR LÝÐVELDIÐ (10 ein.) (val)

Í námskeiðinu verður sjónum beint að þýskum kvikmyndum og menningu á tímabili þess mikla þjóðfélagsumróts sem kennt er við Weimar-lýðveldið (1918-1933). Horft verður á fjölda kvikmynda, auk þess sem lesnir verða bókmenntatextar og samtímagreinar eftir þýska mennta- og listamenn, þar sem tekist er á við menningu Weimar-tímans. Fengist verður jafnt við kvikmyndir sem eiga rætur í konstrúktífisma, öreigamenningu, afþreyingarmenningu, expressjónisma, „nýrri hlutlægni“ (Neue Sachlichkeit) og germanskri átthagamenningu (þ.á.m. kvikmyndir eftir Leni Riefenstahl, Fritz Lang, Slátan Dudow, Walter Ruttmann, og Friedrich W. Murnau). Markmiðið er að nemendur öðlist yfirsýn um fjölbreytta kvikmynda- og menningarframleiðslu tímabilsins, sem ekki er aðeins auðugt að kvikmyndum heldur markar einnig upphaf menningarfræði sem nútímalegrar fræðigreinar.

Kennari er Benedikt Hjartarson


Kvikmyndir og geðveiki (5 ein.)

Í námskeiðinu verður skoðað hvernig kvikmyndir hafa í gegnum tíðina tekist á við geðveiki og persónur sem þjást af einhverju formi geðveilu eða geðhvarfasýki. Hvernig hafa mörkin milli geðveiki og geðheilsu verið kortlögð í kvikmyndum? Hvers eðlis eru þær staðalímyndir sem mest áberandi eru í kvikmyndum sem gera geðveilu að umfjöllunarefni? Hvernig eru meðferðarúrræðin sem viðteknum kvikmyndapersónum býðst, eru þau á annað borð sýnd? Viðhalda kvikmyndir fordómum gagnvart þeim sem taldir eru veikir á geði samkvæmt ríkjandi viðhorfum hvers tíma eða eru þeir kannski fremur sýndir sem hugrakkir utangarðsmenn, aðilar sem neita að láta heilaþvo sig og eiga því ekki annarra kosta völ en brjóta reglur samfélagsins? Er það í raun kerfið sjálft sem er galið? Þessar og fleiri spurningar varðandi kvikmyndir og geðveiki verða til umfjöllunar í námskeiðinu, 

Kennari er Lára Marteinsdóttir


Pasolini (5 ein.)

Ferill leikstjórans, leikskáldsins og helgimyndabrjótarins Pier Paolo Pasolini verður skoðaður, allt frá hans fyrstu mynd Accattonetil hans síðustu, Salo, eða 120 sódómískir dagar. Meðal annara mynda Pasolini sem skoðaðar verða eru Mamma RomaTeoremaMedea og „Lífs-þríleikurinn“ svokallaði. Þróun hans sem kvikmyndagerðarmanns og listræn mótun á afar persónulegu kvikmyndalegu tungutaki verða jafnframt kortlagðar, en áhrif Pasolini á ljóðbíóhreyfinguna (e. cinema of poetry) voru til að mynda mikil. Skrif Pasolini sjálfs um kvikmyndagerð og kvikmyndalistina verða lesin, auk þess sem ljóðagerð hans verður höfð til hliðsjónar. Áhersla verður jafnframt  lögð á að draga fram hvernig Pasolini, sem vissulega var eldfimur og ögrandi, ber að umfram allt að lesa sem pólitískan kvikmyndagerðarmann með óbilandi trú á mætti listarinnar til að hreyfa við fólki, hópum og samfélögum. 

Kennari er Emiliano Monaco

Val: Nemendur með kvikmyndafræði sem aðalgrein geta tekið 20 einingar utan greinar í formi valnámskeiða.