KLÁM Í ÝMSUM MYNDUM

Viðfangsefni námskeiðsins er kvikmyndað klám, saga þess og birtingarmyndir. Fjallað verður um þróun kláms frá steggjamyndunum (e. stag films) sem voru allsráðandi í kvikmynduðu klámi á fyrri hluta 20. aldar til gullaldarklámmynda áttunda áratugarins og vídeó- og netbyltingarinnar undir lok aldarinnar. Rætt verður hvort klám sé sérstök grein menningar og kvikmynda (e. genre) og hvað skilgreini hana sem slíka. Í því samhengi skoðum við ólíkar undirgreinar kvikmyndanna, svo sem danskt „flissklám“ og sænskt fræðsluklám, æsikvikmyndir (e. exploitation) og kynæsikvikmyndir (e. sexploitation), ögrandi listrænar myndir og klámfengnar ofbeldismyndir. Klám verður sett í samfélagslegt samhengi og fjallað um þátt ritskoðunar, tækni og ólíkra áhorfendahópa í sögu þess. Ennfremur verður fjallað um femíníska gagnrýni síðustu áratuga á klám og glímu femínískra og hinsegin leikstjóra við að búa til klám sem sé ekki lóð á vogarskálar feðraveldisins.

Kennarar eru Guðrún Elsa Bragadóttir og Kristín Svava Tómasdóttir

BÍO PARADÍS: VETTVANGSRANNSÓKNIR, RITSTJÓRNARRÝNI OG KRÍTÍSKT KVIKMYNDAÁHORF

Kvikmyndagagnrýni er sérstök tegund skrifa um kvikmyndir sem á sér gjarnan stað í „rauntíma“ og hefur margs konar birtingarform, allt eftir efniviði og birtingarvettvangi. Þjálfaðir greinendur geta dregið upp mynd af samtíma, samfélagi og menningu ásamt því að fjalla málefnalega um einstakar kvikmyndir, kvikmyndasyrpur og jafnvel kvikmyndalistina sjálfa. Í því skyni að færa þjálfun nemenda því sem næst raunverulegu starfi gagnrýnenda er námskeiðið unnið í samstarfi við menningarhúsið Bíó paradís, eina listræna kvikmyndahúsið á Íslandi en hluti námsins verður fólginn í því að sækja almennar sýningar þar og skrifa gagnrýni.

Kennari er: Kjartan Már Ómarsson

KVIKMYNDASAGA (10 ein.)

Yfirlit yfir sögu kvikmyndalistarinnar frá upphafi hennar undir lok 19. aldar til okkar daga. Áhrifaríkustu stefnur hvers tíma verða skoðaðar og lykilmyndir sýndar. Nemendur kynnast sovéska myndfléttuskólanum (montage), franska impressjónismanum, þýska expressjónismanum, stúdíókerfinu bandaríska, ítalska nýraunsæinu, japanska mínímalismanum, frönsku nýbylgjunni, þýska nýbíóinu, suður-ameríska byltingabíóinu og Hong Kong-hasarmyndinni svo eitthvað sé nefnt, og reynt verður að bera þessar ólíku stefnur saman. Lögð verður áhersla á að skoða fagurfræðilega þróun kvikmyndarinnar sem og samtímaleg áhrif á útlit og inntak hennar.

KVIKMYNDAKENNINGAR (10 ein.)

Námskeiðið er hugsað sem ítarlegt sögulegt yfirlit yfir helstu kenningar kvikmyndafræðinnar allt frá upphafi til dagsins í dag. Lesnar verða kenningar frumherja á borð við Sergei Eisenstein, Rudolf Arnheim, Siegfried Kracauer og André Bazin. Tekin verða fyrir margvísleg og róttæk umskipti í nálgun kvikmynda á seinni hluta tuttugustu aldar, líkt og formgerðargreining, marxísk efnistúlkun, sálgreining og femínismi. Loks verða áhrif menningarfræðinnar rædd með áherslu á kynþætti og skoðuð staða kvikmyndarinnar á tímum hnattvæðingar. Kvikmyndir námskeiðsins munu endurspegla margbreytileika lesefnisins enda er þeim ætlað að draga fram sérstöðu ólíkra kenninga.

Kennari er Björn Þór Vilhjálmsson

FRAMÚRSTEFNA

Í námskeiðinu verður fjallað um þær framúrstefnuhreyfingar sem komu fram í Evrópu (og að hluta til utan Evrópu) á fyrstu fjórum áratugum 20. aldar. Í brennidepli verða þekktustu hreyfingar tímabilsins (expressjónismi, ítalskur og rússneskur fútúrismi, dada, konstrúktívismi og súrrealismi) en sjónum verður einnig beint að smærri og minna þekktum hópum, auk þess sem hugað verður að framhaldslífi framúrstefnunnar í starfsemi hópa og hreyfinga frá eftirstríðsárunum til samtímans. Fengist verður við hugmyndir framúrstefnunnar um sköpun nýrrar fagurfræðilegrar menningar og hugveru sem og hugmyndir hennar um endurnýjun ólíkra listgreina og bókmenntagreina

Kennari er Benedikt Hjartarson


ÍTALSKAR KVIKMYNDIR

Í námskeiðinu Ítalskar kvikmyndir er nemendum veitt innsýn í sögu kvikmyndagerðar á ítalíu á tuttugustu öld. Raktir verða helstu þættir sem hafa haft áhrif á ítalska kvikmyndagerð og reynt að greina hvað það er sem helst einkennir ítalskar kvikmyndir. Einnig verður farið í nokkur grunnatriði í kvikmyndagreiningu til að auðvelda nemendum rannsóknir sínar.

Kennari er Emiliano Monaco


ALÞJÓÐLEG NÚTÍMALISTASAGA

Farið verður í þróun myndlistar frá umbrotatímum módernismans á síðustu áratugum 19. aldar, í gegnum helstu framúrstefnuhreyfingar eða -isma 20.aldar fram til ársins 1970. Gerð verður grein fyrir helstu stefnum módernískrar myndlistar, forsendum þeirra, sérkennum og mikilvægi fyrir síðari tíma. Fjallað verður um tengsl listar við pólitík, heimspeki og þjóðfélagsþróun og hugað að róttæku endurmati á fegurðarhugtakinu í listum á 20. öld.

Kennari er Aðalsteinn Ingólfsson


ÞÝSKAR KVIKMYNDIR EFTIR 1990

Fljótlega eftir sameiningu Þýskalands fór kvikmyndagerð hins nýstofnaða lýðveldis að taka við sér. Í námskeiðinu verður farið yfir þýska kvikmyndagerð frá 1990 til dagsins í dag þar sem farið verður í áherslur kvikmyndagerðarmanna og uppgjör þeirra við söguna, erfið málefni samtímans og tilraunir þeirra í átt að vinsældum. Farið verður yfir fjölbreytta kvikmyndagerð Þýskalands á þessum árum og staldrað við ákveðin atriði, söguleg, samfélagsleg og pólitísk, sem kafað verður dýpra í.

Kennari er Gunnar Tómas Kristófersson


MENNINGARHEIMAR

Þverfaglegt inngangsnámskeið þar sem efnt er til samræðu milli fræðasviða námsbrautarinnar, þ.e. bókmenntafræði, kvikmyndafræði, kynjafræði, listfræði, málvísinda, menningarfræði, táknmálsfræði og þýðingafræði. Birtu verður brugðið á alþjóðlegar hræringar í hugvísindum á liðnum áratugum en jafnframt rýnt í tengsl fræða og heimsmyndar.

Val: Nemendur með kvikmyndafræði sem aðalgrein geta tekið 20 einingar utan greinar í formi valnámskeiða.