KVIKMYNDARÝNI

Hér er um að ræða grunnfag námsgreinarinnar kvikmyndafræði þar sem kynnt eru til sögunnar lykilhugtök og aðferðir í túlkun kvikmynda. Farið verður ítarlega í frásagnaruppbyggingu og sviðsmynd kvikmynda, sem og kvikmyndatöku, klippingu, hljóðvinnslu og tónlist. Ræddar verða ólíkar gerðir kvikmynda og sýnd dæmi um heimilda- og tilraunamyndir auk hefðbundinna leikinna kvikmynda. Í framhaldi munu nemendur kynnast fræðilegri kvikmyndarýni þar sem lögð er áhersla á kvikmyndagreinar, -höfunda og -stjörnur. Á kvikmyndasýningunum verða dregin fram þau sérkenni sem einkenna lesefni hverrar viku enda er námskeiðið að stórum hlut hugsað sem inngangur og æfing í kvikmyndarýni.

Kennari er Björn Þór Vilhjálmsson


RÖKKURMYNDIR OG HARÐSOÐNA SKÁLDSAGAN

Yfirlitsnámskeið þar sem skoðuð eru helstu einkenni rökkurmynda. Farið verður í úrval kvikmynda frá 1940-1999 með það fyrir augum að skoða þróun greinarinnar sem slíkrar. Jafnframt verða lesnar nokkrar skáldsögur til hliðsjónar. Meðal helstu kvikmynda námskeiðsins eru: The Maltese Falcon, Double Indemnity, Laura, Out of the Past, Body Heat og The Last Seduction.

Kennari er Guðni Elísson


JAPANSKAR KVIKMYNDIR (val)

Fjallað er um japanskar kvikmyndir frá upphafi til þessa dags með aðaláherslu á klassíska tímabilið 1950-70 og höfundum eins og Kurosawa, Ozu, Mizoguchi og fleiri. Myndirnar eru rannsakaðar og greindar og og athugað hvernig japönsk menning, saga og þjóðfélag endurspeglast í þeim. Skoðaðar verða myndir eftir fyrrnefndra leikstjóra og einnig nýrri verk.

Kennt er á ensku.
Kennari er Þorsteinn Jónsson


ÍSLENSKAR KVIKMYNDIR OG GREINAHEFÐIR

Í námskeiðinu verða íslenskar kvikmyndir skoðaðar með hliðsjón af kenningum um kvikmyndagreinar, og víða verður ferðast um kvikmyndasöguna, eða allt frá þjóðlegum efnistökum frumherjanna til harðsoðinna glæpamynda samtímans. Litið verður til þess hvernig ákveðnar kvikmyndagreinar virðast henta til útflutnings meðan aðrar hafa reynst heimakærari. Rýnt verður í greinar sem hafa fest sig í sessi, eins og listamyndina, og aðrar sem ekki hefur tekist það, líkt og dans- og söngvamyndina. Skoðað verður hvernig íslenskar kvikmyndir falla undir alþjóðlegar meginstraumsgreinahefðir líkt og glæpamyndina og hrollvekjuna, en umbreyta þeim um leið með „þjóðlegum“ áherslum. Lesnir verða nokkrir mikilvægustu textar greinafræðanna og þeir skoðaðir í samhengi við íslenskar kvikmyndahefðir.

Kennari er Gunnar Tómas Kristófersson


INGMAR BERGMAN – UPPREISN GEGN FÖÐURÍMYND (val)

Í námskeiðinu verður fjallað um kvikmyndir Ingmars Bergman, fyrst og fremst fyrstu kvikmyndir frá tímabilinu 1950-60, þar sem uppreisn gegn föðurvaldinu myndar eins konar sálrænan kjarna. Áhersla verður lögð á þróun þemans um þörf hins trúaða manns fyrir einhvers konar tákn frá Guði í Sjunde inseglet (1956) til þess að hann samþykki að trúa á hinn grimma Guð í Jungfrukällan (1960) og áfram til uppgjörs við hina neikvæðu guðsmynd í Såsom i spegel (1961), Nattvardsgästerna (1962) og Tystnaden (1963). Sýndar verða sex myndir sem heild og haldnir stuttir fyrirlestrar með umræðum.

Kennari er Maria Riska


BÓKMENNTARITGERÐIR

Fjallað verður um ýmsar gerðir bókmennta- og kvikmyndaritgerða (allt frá fræðilegum ritgerðum til ritdóma, ádeilugreina og pistla). Nemendur hljóta þjálfun í hinum ýmsu þáttum ritgerðasmíðar: afmörkun viðfangsefnis, hugmyndaúrvinnslu, byggingu, röksemdafærslu, tilvísunum, heimildanotkun og frágangi. Kannað verður hvers konar orðræða liggur til grundvallar mismunandi ritgerðum, hver hinn innbyggði lesandi er og hvers konar almennri eða fræðilegri umræðu ritgerðin tengist. Nemendur eru hvattir til að taka námskeiðið á fyrsta námsári.

Kennari er Gunnþórunn Guðmundsdóttir


KVIKMYNDIR ÞRIÐJA RÍKISINS (val)

Í námskeiðinu verður fjallað um meginþemu þeirra kvikmynda sem gerðar voru undir stjórn nazista á valdatíma þeirra og þær hugmyndafræðilegar forsendur sem þar er gengið út frá í miðlun áróðurs. Meðal þeirra þema sem tekin verða til greiningar í þessum kvikmyndum eru Þjóðverjar sem fórnarlömb, þjóðernishyggja, kynþáttahyggja, kynjahlutverk, samskipti kynjanna, siðferðisgildi, líknardráp, dauðarefsingar, trúarbrögð, sveitarmenning, blóð og jörð, hernaðarhyggja, útþenslustefna, andkommúnismi, andlýðræðishyggja, andeinstaklingshyggja, skilyrðislaus undirgefni gagnvart yfirvöldum og mikilvægi sjálfsfórnar fyrir ættjörð, félaga og foringja. Öll þessi viðfangsefni verða sett í menningarsögulegt, félagslegt og trúarlegt samhengi og spurt að hvaða marki megi enn greina þau í málefnaumræðu samtímans en samhliða því verður sérstaklega hugað að ýmsum álitamálum um eðli, inntak og áhrif áróðurs.

Kennari er Bjarni Randver Sigurvinsson

Val: Nemendur með kvikmyndafræði sem aðalgrein geta tekið 20 einingar utan greinar í formi valnámskeiða.