SKIPULAG NÁMSINS

Skipulag náms, námskeið og einingar

Kvikmyndafræði er sjálfstæð námsgrein innan Íslensku- og menningardeildar. Hún er kennd sem aðalgrein til 120 eininga og sem aukagrein til 60 eininga. Nemandi sem hefur kvikmyndafræði sem aðalgrein mun ljúka 50 einingum í skyldunámskeiðum, taka 40 einingar í valnámskeiðum innan greinar og 20 einingar utan greinar. Lokaverkið er svo að skrifa 10 eininga B.A. ritgerð (í undantekningartilfellum getur nemandi sótt um að fá að skrifa 20 eininga ritgerð, einingunum sem þannig er teflt milli dálka koma jafnan úr námsferli viðkomandi).

Skyldunámskeið

Skyldunámskeiðin sem nemandi tekur meðan á kvikmyndafræðináminu stendur eru „Kvikmyndarýni“, „Kvikmyndasaga“, „Kvikmyndakenningar“, „Menningarheimar“ og „Bókmenntaritgerðir“. Ætlast er til að skyldunámskeiðin séu tekin eins hratt og auðugt er, og í tiltekinni röð.

Námskeiðið „Kvikmyndarýni“ er ávallt kennt að hausti, líkt og „Bókmenntaritgerðir“, en þar er fjallað um undirstöðuhugtök, greiningaraðferðir og það sem aðskilur „fræðilega“ umfjöllun um kvikmyndir frá annars konar textum.  Um vorið gefst kostur á að taka „Kvikmyndakenningar“ samhliða námskeiði um alþjóðlega sögu kvikmyndalistarinnar, „Kvikmyndasaga“. „Menningarheimarnir“ eru jafnan kenndir á sömu önn. „Kvikmyndakenningar“ er eina skyldunámskeiðið sem forkröfur eru gerðar til þátttöku, en nauðsynlegt er að hafa lokið „Kvikmyndarýni“.

„Menningarheimar“ (vor) og „Bókmenntaritgerðir“ (haust) eru almennari eðlis, og síðarnefnda námskeiðið er jafnframt kennt innan vébanda almennrar bókmenntafræði. Tilgangur og markmið þess er að þjálfa nemendur í vinnslu fræðilegra texta, bæði er lýtur að aðferðafræði, röklegum málflutningi og heimildameðferð en einnig inntaki, mótun hugmynda, notkun á myndmáli og ýmsu öðru. Þá veita „Menningarheimar“ innsýn í ólíkar hliðar hugvísindanna, bæði þættina sem skilja greinarnar að en einnig undirliggjandi og sameiginleg fræðileg eigindi og áherslur.

Ljóst er því að fyrsta námsárið mótast að verulegu leyti af skyldunámskeiðunum, mögulegt er að ljúka 20 skyldueiningum að hausti („Bókmenntaritgerðir“ og „Kvikmyndarýni“) og 30 að vori („Kvikmyndakenningar“, „Kvikmyndasaga“ og „Menningarheimar“).

Valnámskeið

Meðal valnámskeiða undanfarinna ára má nefna „Dans- og söngvamyndin í hundrað ár“, „Költmyndir, aðdáendamenning og greinaflækjur“ og „Vísindaskáldskapur í bókmenntum og kvikmyndum“. Boðið hefur verið upp á námskeið um kvikmyndir og femínisma og hinsegin kvikmyndagerð og vorið 2018 verður boðið upp á 10 eininga námskeið sem nefnist „Konur, minnihlutahópar og þjóðfélagsgagnrýni: Kvikmyndir frá menningarsvæðum múslima“.

Mikilvægur greinamunur er hins vegar gerður milli valnámskeiða innan greinar og svo valnámskeiða utan greinar. Nemendur í kvikmyndafræði ljúka 40 einingum af valnámskeiðum innan greinar en sami nemandi sækir aðeins 20 einingar í formi valnámskeiða utan greinar.

Í kennsluskrá er greint milli þessara námskeiða með óbeinum hætti, það er að segja, öll virðast þau jafn rétthá við fyrstu sýn. Það eru þó aðeins námskeið sem merkt eru kvikmyndafræðinni sérstaklega (skammstöfunin KVI kemur á undan námskeiðsnúmerinu) sem flokkast sem „námskeið innan greinar“, auk námskeiða sem kennd eru í almennri bókmenntafræði og fela í sér skýra skírskotun til kvikmynda. Fjölmörg önnur námskeið bjóðast en þegar vel er að gáð sést líka hvernig þau eru merkt ólíkum greinum (tungumálunum, sagnfræði, kynjafræði o.s.frv.). Einingar fyrir þessi námskeið eru metin á námsferli sem „utan greinar“. Gert er ráð fyrir að nemandi ljúki 20 einingum af slíkum námskeiðum, og gætu þar verið á ferðinni tvö tíu eininga námskeið eða eitt slíkt og tvö fimm eininga.

Lítum á námskeiðaframboðið í kennsluskrá 2016–2017 með ofangreint til hliðsjónar. Fyrst blasir tafla við okkur.

Af sextán námskeiðum sem eru í boði eru sjö kennd innan kvikmyndafræðinnar. Eitt ABF námskeið er skráð, „Hrollvekjur“, sem Guðni Elísson kennir, og þótt það sé skráð í almenna bókmenntafræði (ABF103G) virkar það einnig sem „innan greinar“í kvikmyndafræðinni, sökum þess að kvikmyndum og bókmenntum er gert jafnhátt undir höfði í kennsluefninu. „Kvenhetjur í Hollywood“ er námskeið í sagnfræðinni og algengt er að málagreinar bjóði upp á námskeið um þekktustu leikstjóra viðkomandi þjóðlanda (námskeiðið um Ingmar Bergman hér að ofan er í boði sænsku sem námsgreinar og „Japanskar kvikmyndir“ er kennt innan japönskunnar).

Af námskeiðunum í töflunni eru aðeins eftirfarandi námskeið skilgreined sem valnámskeið innan greinar. Athugið að eitt þeirra kemur úr almennri bókmenntafræði:

KVI407G Evrópskar nýbylgjur og heimsbíóið
KVI305G Frá 101 til Hollywood: Baltasar Kormákur og íslensk kvikmyndamenning
ABF113G Hrollvekjur
KVI306G Myndlist og kvikmyndir
KVI208G Samtímakvikmyndir um víða veröld

Skylduáfangarnir eru þessir:

BF103G Bókmenntaritgerðir
TÁK204G Menningarheimar
KVI401G Kvikmyndakenningar
KVI101G Kvikmyndarýni
KVI201G Kvikmyndasaga
KVI241L BA ritgerði í kvikmyndafræði

Hér eru að lokum valáfangar kennsluársins 2016–2017 utan greinar:

LIS243G Alþjóðleg nútímalistasaga frá 1870 til 1970
JAP107G Japanskar kvikmyndir
ÍTA403G Ítalskar kvikmyndir
SAG432G Kvenhetjur Hollywood
SÆN105G Ingmar Bergman – uppreisn gegn föðurímynd
SPÆ101M Kvikmyndir Spánar

Aukagrein

Vitanlega er ekki um eðlismun að ræða milli kvikmyndafræðinnar sem aðalgreinar og aukagreinar. Kvikmyndafræðin verður einfaldlega ekki jafn viðamikilll þáttur af háskólanámi einstaklinga sem aukagrein. Af skyldunámskeiðunum tekur nemandi með kvikmyndafræði sem aukagrein „Kvikmyndarýni“ og „Kvikmyndasögu“. Þá er 20 námskeiðseiningar sem taka skal innan greinar og jafnmargar sem val utan greinar.

Markmið kennslu í kvikmyndafræði er að veita yfirlit yfir sögu kvikmynda á Vesturlöndum og að nokkru leyti í öðrum heimshlutum, að þjálfa nemendur í að skilja og túlka kvikmyndir frá ýmsum tímum og ólíkum þjóðlöndum, m.a. með hliðsjón af öðrum listgreinum, bókmenntum og menningu. Einnig er markmiðið að kynna fyrir nemendum helstu hugtök og vinnuaðferðir í kvikmyndafræði og leiðbeina þeim í gagnrýnni notkun á handbókum og öðrum ritum um kvikmyndir, bókmenntir og menningu almennt, og loks að þjálfa þá í að fjalla um kvikmyndir og annað myndefni og texta á sjálfstæðan hátt í fræðilegum ritgerðum.