LOKAVERKEFNI 2016

2016 – 2015 – 2014 – 2013 – 2012 – 2011 – 2010 – 2009


2016

Arna Björk SigurðardóttirÞróun merkingarbærrar litanotkunar í kvikmyndum: Liturinn sem boðberi vitundar- og söguheimaskila í höfundarverkum David Lynch

Litkvikmyndin var tengd við óraunsæi fremur en raunsæi á fyrstu áratugum miðilsins. Filmurnar voru handmálaðar fyrst um sinn og þótti það ekki standast raunsæiskröfur. Með tækniframþróun litkvikmyndarinnar og tilkomu litasjónvarpsins mjakaðist miðillinn nær raunsæi og á endanum voru litkvikmyndir fremur meðteknar sem raunsæi en svart/hvíta kvikmyndin. Hér verður farið yfir sögu litkvikmyndarinnar. Helstu tækniframförum gefin skil ásamt því að skoða þróun merkingarbæri lita innan kvikmyndamiðilsins. Technicolor spilaði stóran þátt í þróun litkvikmyndarinnar. Farið verður í grófum dráttum yfir sögu Technicolor ásamt því að ræða umdeildan listrænan stjórnanda sem starfaði hjá þeim, Natalie M. Kalmus. Leiðin mun liggja að kvikmyndum, kanadíska kvikmyndagerðarmannsins, David Lynch. Hann nýtir sér „fullbúnu“ litkvikmyndina og bætir við hana „afbrigðilegri“ litanotkun, eða kastar fram litum þar sem þeir eru ekki á heimavelli, til að draga fram söguheimaskil. Fjórar kvikmyndir Lynch verða til umfjöllunar: Blue Velvet (1986), Lost Highway (1997), Mulholland Drive (2001) og Inland Empire (2006). Tekin verða dæmi úr þeim til að draga fram hvernig Lynch notar liti til að aðgreina söguskil.

Ingólfur ArasonGeðsjúkar söguhetjur: Andlega veikar aðalpersónur í þremur kvikmyndum

Í þessari ritgerð eru tengslin milli kvikmynda og geðveiki skoðuð og framsetning á geðveiki í kvikmyndum verður rannsökuð út frá sjónarhorni geðveikrar aðalpersónu. Skoðaðar verða tvær erlendar kvikmyndir og ein íslensk en allar innihalda þær geðveika söguhetju. Sérstaklega verður skoðað hvernig upplifun söguhetjunnar af veikindum sínum er miðlað til áhorfenda í gegnum tæki kvikmyndagerðarinnar, ss. klippingu, sjónarhorn og lýsingu. Þá verður skoðað hvernig veikindin eru útskýrð í gegnum frásagnartæki, atburði og samræður. Í öllum þessum kvikmyndum er stöðu geðsjúklingsins í samfélaginu gefinn gaumur og einangrun hans yfirleitt undirstrikuð. Í ritgerðinni verður rannsakað hvernig frásögn af geðveiki tekst til í þessum kvikmyndum, hvaða leiðir eru færar til að setja áhorfandann í spor þess sem þjáist af geðveiki og hvaða takmörkunum kvikmyndalistin mætir við að miðla þessum upplifunum. Fyrsta kvikmyndin sem ég tek fyrir er Englar Alheimsins en hún segir frá ævilangri baráttu íslensk manns við geðklofa. Næst tek ég fyrir Taxi Driver sem fjallar um bandarískan leigubílstjóra sem smám saman missir andlega heilsu sína. Í lokin fjalla ég um Clean, Shaven (1993), aðra mynd um geðklofasjúkling sem reynir að hafa uppi á dóttur sinni sem hann hefur misst forræði yfir. Tæknilegar, listrænar og frásagnarlegar aðferðir til að lýsa aðstæðum og hugarheimum þessara persóna verða rannsakaðar. Í lokakaflanum fer ég í samanburð á þessum kvikmyndum og skoða hvað heppnast best í hverri mynd fyrir sig og hvað þær eiga sameiginlegt.

Bardales Araujo, NathaliaSociology of Cinema. Icelandic Male Identity in Hilmar Oddsson’s Filmography

This study is a BA project for Film Studies at the School of Humanities at the University of Iceland. The project consists of decoding Hilmar Oddsson’s perspective towards the Icelandic male identity by analysing his most remembered films, which are considered both as realistic and representative for Icelanders. Additionally, it will discuss the history of Icelandic films, their background and Hilmar Oddsson’s adherence to the industry as well as ideologies behind the Icelandic film industry, its relation to the European market and the significance of identity for Icelandic culture and filmmakers. Identity, its representations and the experience of the Icelandic male reflected in Oddsson’s films is the main subject analysed in this paper. In order to analyse Oddsson’s representation of identity different reference materials and sources are used with special reference to Enrique del Acebo Ibáñez’s sociological theories. This allows for a better understanding of the basic concept of identity and cultural theory, which expose the anomie of the subject, and its integration and socialisation processes. The result allows understanding Hilmar Oddsson’s male representations and sociocultural conceptions of the Icelandic male identity. Furthermore, methodical observations are essential to recognise the plot, environment, setting and theme presented in Oddsson’s filmography. Finally, the analysis of films, authorship, Icelandic culture, history and theory are applied systematically to separate fiction from reality and likewise to understand Hilmar Oddsson’s interpretation of the male identity in Icelandic society.

Andri EyjólfssonÖrvilnun til allra átta. Nói albínói og feðraveldið

Í þessari ritgerð verður fjallað um feðraveldið út frá allskyns mismunandi sjónarhornum með kvikmyndina Nóa albínóa (2003) eftir Dag Kára Pétursson sem útgangspunkt. Í fyrsta kafla ritgerðarinnar verður litið til uppruna, sögu og þróun feðraveldisins í tengslum við aðalsöguhetju myndarinnar Nóa. Í öðrum kaflanum verður áhersla lögð á formgerð myndarinnar út frá þeirri kenningu að myndin feli í sér ádeilu á feðraveldis skipulagi í ljósi þess hvernig framsetningu myndarinnar er háttað. Samanburður forms og innihalds leiðir til lykta afar flókna togstreitu vinstri sinnaðra mótmæla gegn feðraveldinu í landslagi drifið áfram af lögmálum kapítalismans. Eins og mun koma fram er kapítalismi og feðraveldið samofin fyrirbæri og er kvikmyndamiðillinn í erfiðu fjármálaumhverfi sínu þess vegna ávallt erfiður miðill þegar kemur að ótvíræðri samfélagslegri gagnrýni.

Díana Ellen HamiltonStrákastelpan og félagslegar formgerðir. Katharine Hepburn

Í þessari ritgerð verður fjallað um hvernig í samfélaginu leynast ólíkar formgerðir manna og hvernig út frá þeim geta myndast staðalímyndir. Upphaf stjörnukerfisins verður skoðað stuttlega og litið til tengsla þess við upphafsdaga stúdíókerfisins í Hollywood. Þá verður skoðað hvað það er sem á þátt í að móta ímynd stjörnunnar og hver áhrif hennar eru á aðdáendur. Kenningar Orrin E. Klapp verða skoðaðar en hann þróaði hugtakið um félagslegar formgerðir og nefnir þrjár sem hann telur ráðandi, þær eru góði gæinn, töffarinn og skvísan. Katharine Hepburn verður tekin sem dæmi um kvenstjörnu sem ekki þótti passa inn í ráðandi formgerðir í samfélaginu en hún hafði þá ímynd að vera strákastelpa. Strákastelpa er hugtak sem verður skoðað með bókina Tomboys eftir Michelle Ann Abate til stuðnings. Farið verður stuttlega í æsku og feril Hepburn með hjálp ævisagna sem skrifaðar hafa verið um hana. Talið er að uppeldi hennar hafi átt stóran þátt í mótun hennar sem einstaklings og átti hún að hafa tekið oft að sér hlutverk í kvikmyndum sem voru keimlík hennar eigin persónuleika sem átti að útskýra hversvegna hún fékk meira lof fyrir frammistöðu sína í þeim kvikmyndum en öðrum.

Sólveig JohnsenGlettni, gloss og glitrandi gumar. Kvikmyndasöguleg umfjöllun um drag og klæðskipti ásamt greiningu á dragi í The Adventures of Priscilla, Queen of the Desert

Ritgerð þessi fjallar um drag í kvikmyndum. Fyrri hluti hennar er söguleg skoðun: Drag og klæðskipti í kvikmyndasögunni eru sett í samhengi við samfélagsleg viðhorf og þýðingarmikla sögulega atburði. Í seinni hluta ritgerðarinnar er drag í áströlsku kvikmyndinni The Adventures of Priscilla, Queen of the Desert (Stephan Elliott, 1994) greint. Athugað er hvort og hvernig þær ímyndir sem birtast í kvikmyndinni skeri sig frá þekktum birtingarmyndum drags í kvikmyndum meginstraumsins. Tvær kvikmyndir frá svipuðum tíma, úr smiðju Hollywood, eru notaðar til samanburðar: To Wong Foo Thanks for Everything, Julie Newmar (Beeban Kidron, 1995) og The Birdcage (Mike Nichols, 1996). Jafnframt er stuðst við greiningu Richard Dyer á staðalímyndum samkynhneigðra, skrif Susan Sontag og Jack Babuscio um stílbragðið kamp (e. camp) og hugmyndir Lauru Mulvey og Steve Neale um ímyndir kynferðis.

Björn Birgir ÞorlákssonKvikmyndasjóður í mótun. Aðkoma stjórnvalda og stefnumótun til framtíðar

Í þessari ritgerð gefur að líta umfjöllun um Kvikmyndasjóð Íslands og hlutverk hans frá stofnun. Gefið verður ágrip af lagalegri þróun sjóðsins og þeim breytingum á stefnu stjórnvalda sem fylgdu í kjölfar lagabreytinganna. Hugmyndin að þessu efni kviknaði í kringum vangaveltur um gerð kvikmynda og möguleikann á að sækja styrki til gerðar þeirra. Það sem vakti einna helst áhuga minn á viðfangsefninu er hversu lítið er til af upplýsingum um sjóðinn og hversu huldu höfði gagnrýni á hann hefur farið. Þegar hugsað er til sjóðsins eru eflaust skiptar skoðanir fólks á honum eftir því hvort viðkomandi sé í kvikmyndageiranum eða ekki. Almennt séð fer heldur lítið fyrir honum en hann spilar stórt hlutverk í veruleika þeirra sem þarfnast styrkja frá honum.

Steinunn JónsdóttirForboðna rýmið: Textatengsl kvikmyndanna American Psycho og Death Proof við ævintýrið Bláskeggur

Margrét Erla BjörgvinsdóttirHinn hreini gluggi heimildamynda: Kvikmyndagreining Blackfish og This is the True Story of SeaWorld

Í ritgerð þessari var skoðuð heimildamyndin Blackfish (Gabriela Cowperthwaite, 2013) og myndbandið This is the True Story of SeaWorld sem framleitt var af SeaWorld.. Myndirnar fjalla um sædýragarða SeaWorld og meðferð háhyrninga í þeim en sjónarhornið er mismunandi og frásögn af sömu atbuðum ólík. Markmiðið var að velja myndir sem hafa ólíka nálgun á sama viðfangsefni og skoða hvort og þá hvernig frásögn er aðlöguð fyrir hagsmuni málstaðarins.  Í fyrsta kafla er fjallað um sérkenni heimildamynda og hvað aðgreinir þær frá öðrum kvikmyndum t.d. skáldskaparmyndum (e. fiction films). Ýmsar kenningar um heimildamyndir eru skoðaðar og fjallað um hver eru helstu sérkenni heimildamynda. Almennt njóta heimildamyndir trausts, áhorfendur eru oft lítt gagnrýnir og taka því sem fyrir augu ber sem sannleika. Áhugavert er því að skoða áhrif og áhrifamátt heimildamynda, hvernig framsetningarmáti í myndarinni skiptir máli um hvernig efnið skilar sér til áhorfenda.  Í öðrum kafla er skoðað flokkunarkerfi bandaríska kvikmyndarýnandans og fræðimannsins Bill Nichols á framsetningarmáta í heimildamyndum. Flokkair Bill Nichols eru alls sex en í ritgerðinni er fjallað um þá fjóra flokka sem eru aðallega notaðir og þekktir ; skýringar heimildamyndin (e. Expository mode), sannleiks heimildamyndin (e. observational mode), þátttöku heimildamyndin (e. interactive/participatory mode) og sjálfhverfa heimildamyndin (e. reflexive mode). Sagt er frá hvað einkennir heimildamyndir í hverjum flokk. Í kafla þrjú voru kenningar Nichols um framsetningarmáta notaðar til stuðnings við að greina frásagnaraðferðir sem beitt er í áðurnefndum myndum. Reynt var að finna hvaða atriði eru helst notuð til að miðla boðskap myndarinnar til áhorfenda. Ýtarleg umfjöllun er um báðar myndirnar og skoðað hvernig frásögnin er notuð til að undirbyggja ákveðinn boðskap sem framleiðendur virðast vilja koma á framfæri.  Í kafla fjögur eru vangaveltur um efni og framsetningu myndanna út frá tilgangi framleiðslunnar. Hvar liggur sannleikurinn í frásögn myndanna. Eftir útkomu myndarinnar Blackfish urðu breytingar á starfssemi sædýragarða SeaWorld og er því velt upp hvort og þá hvernig myndin hafði þar áhrif.