LOKAVERKEFNI 2015

2016 – 2015 – 2014 – 2013 – 2012 – 2011 – 2010 – 2009


2015

Skúli Jón Kristinnsson UnnarssonÍ veröld bannhelginnar: Fagurfræði og fasismi í Næturverði Liliönu Cavani

 

Þrándur Jensson: Vald og kúgun í kvikmyndum Stanley Kubricks: Greining á Lolitu og 2001: A Space Odyssey

Stanley Kubrick er einn af merkustu kvikmyndaleikstjórum síðustu aldar. Hann skildi eftir sig meistaraverk sem kynslóðir dást að enn þann dag í dag. Í þessari ritgerð eru kvikmyndir hans Lolita og 2001: A Space Odyssey teknar fyrir. Markmið ritgerðarinnar er að benda á hvar og hvernig þættirnir vald og kúgun koma fram sem sýnileg einkenni í kvikmyndum hans. Fyrst er farið lauslega í forsögu Kubricks, sagan er rakin frá unglingsárum og þar til hann leikstýrir Lolitu. Framleiðsluferli Lolitu er því næst tekið til umfjöllunar og er söguþráður kvikmyndarinnar skoðaður í ljósi valds og kúgunar. Bent er á hvernig Kubrick notar kvikmyndatæknina til þess að undirstrika þessa þætti. Samskipti persónanna í Lolitu eru greind sem eitt af mikilvægustu dæmunum um vald og kúgun í myndinni og farið er inn á ýmsar kenningar um þau samskipti. Í framhaldinu er kvikmyndin 2001: A Space Odyssey greind, fjallað er um kaflaskiptan söguþráð verksins og ljósi varpað á mismunandi áherslur kaflanna á vald og kúgun. Dregin eru fram helstu atriði þar sem þættirnir eru hvað sýnilegastir í báðum umræddum kvikmyndum og hvar má greina líkindi með verkunum.

Bjarndís Helga TómasdóttirSherlock Holmes á skjánum: Hinsegin rökvísi, samkynhneigð skelfing og nútími í tveimur þáttaröðum um íbúana á 221b Baker Street

Í þessari ritgerð verður litið til kvikmynda- og sjónvarpsaðlagana á verkum Sir Arthurs Conan Doyle um sérlundaða spæjarann Sherlock Holmes og lækninn John Watson. Þeirri spurningu er velt upp hvaða þýðingu persóna Holmes hefur fyrir nútímann frá sjónarhorni hinsegin fræða. Notast er við kenningar Wolfang Iser um eyður í texta til þess að gera grein fyrir hinsegin túlkunarrými í verkum Doyles. Í framhaldi er áhersla lögð á að greina ákveðinn flótta eða afneitun á hinsegin túlkun í þeim aðlögunum út frá hugmyndum Eve Kosofsky Sedgwick um „samkynhneigðu skelfinguna“ (e. homosexual panic) og „karllægu félagsþrána“ (e. homosocial desire). Þær eru notaðar til þess að greina þrjár 21. aldar aðlaganir, Elementary (2012-), Sherlock (2010-) og kvikmyndaðlaganir Guy Ritchie, Sherlock Holmes (2009) og Sherlock Holmes: A Game of Shadows (2011), en aðaláherslan er lögð á sjónvarpsþáttaaðlaganirnar.

Stefanía Björg VíkingsdóttirFrá vestranum til vísindamyndarinnar: Birtingarmynd paródíunnar í kvikmyndum Mel Brooks

Kristín Ósk SævarsdóttirFrankly, he gave a damn! David O.Selznick og hlutverk hans sem framleiðandi í stúdíókerfi Hollywood

Oddný ÞórhallsdóttirAð vera eða ekki vera maður sjálfur. Birtingarform listamannsins í tveimur myndum eftir Ethan og Joel Coen

Kvikmyndirnar Barton Fink (1991) og Inside Llewyn Davis (2013) eftir Ethan og Joel Coen verða teknar fyrir í þessari ritgerð, þar sem dregin er upp mynd af handritshöfundinum Barton Fink og þjóðlagasöngvaranum Llewyn Davis. Fjallað er um þá baráttu sem þessir listamenn há í tengslum við list sína. Tilvistarstefnan sem mannhyggja verður höfð að leiðarljósi við greiningu á þeim Fink og Davis. Einnig verður komið inn á kenningar Sören Kirkegaard um mikilvægi þess að hið persónulega sjálf sé í félagslegum samskiptum við aðra. Kvikmynda- og tónlistariðnaðurinn hafa áhrif á aðstæður þessara tveggja listamanna. Þar eru kenningar Max Horkheimer og Theodor Adorno um menningariðnaðinn hafðar til hliðsjónar við greininguna. Barton Fink hverfist um viðfangsefni sitt og erfiðleika þá sem handritshöfundur stendur frammi fyrir við gerð handrits. Komið er inn á ritstíflu, erfiðar samningsviðræður og hvernig kvikmyndaiðnaðurinn í Hollywood gerir kröfu um ákveðna mynd og útilokar persónulega sýn handritshöfundar. Llewyn Davis býr yfir hæfileikum á tónlistarsviðinu en helsta hindrun á leið hans til frama er hans eigin sálarangist og honum er nánast um megn að mynda tilfinningaleg tengsl við fólk. Hann grípur ekki tækifæri sem að honum eru rétt innan tónlistariðnaðarins.

Brynja HjálmsdóttirRokk, rugl og ráðaleysi. Kvikmyndir Akis Kaurismäki í ljósi póstmódernískra fræða Fredrics Jameson

Hér er fjallað um hvernig hið póstmóderníska ástand birtist í kvikmyndum Akis Kaurismäki frá 9. áratugnum. Í upphafi er litið til þess að Kaurismäki hóf kvikmyndagerð á tímum straumhvarfa í stjórnmála- og efnahagslífi Finnlands, sem setti sterkan svip á fyrstu kvikmyndir hans. Þá er sett fram sú tillaga að bæði pólitískt ástand í Finnlandi og kvikmyndir Kaurismäkis beri einkenni póstmódernisma. Við greiningu er stuðst við póstmóderníska kenningu Fredrics Jameson en þar sem Jameson er marxískur fræðimaður tekur hann sérstakt tillit til efnahagslegrar undirbyggingar póstmódernískrar menningar. Kvikmyndagreiningin skiptist í þrá kafla sem hver og einn hverfist um tiltekið hugtak úr kenningu Jamesons; stælingu, nostalgíu og Útópíu. Í upphafi hvers kafla er gerð grein fyrir viðkomandi hugtaki og í kjölfarið eru myndirnar mátaðar við það. Með því að gaumgæfa fyrstu sex myndir Kaurismäkis í ljósi kenninga Jamesons má sjá á hvernig þær vega og meta sinn póstmóderníska samtíma.

Ástríður RíkharðsdóttirVísindamyndir og femínismi

Í þessari ritgerð verður litið á vísindamyndir í tímans rás og ímyndir kvenna skoðaðar í kvikmyndunum Metropolis (Fritz Lang, 1927), Forbidden Planet (Fred M. Wilcox, 1956), Alien (Ridley Scott, 1979), Blade Runner (Ridley Scott, 1982), Aliens (James Cameron, 1986), Alien: Resurrection (Jean Pierre Jeunet, 1997) og að lokum Gravity (Alfonso Cuarón, 2013). Lagt verður út af kenningum Lauru Mulvey um tvívíðni kvenhetja í hefðbundnum Hollywood frásagnarkvikmyndum og rannsakað hvort að þróun hafi átt sér stað í vísindamyndum. Við þá athugun verða einnig skoðaðar kenningar Freud um tvífaraminnið og hið óhugnanlega og verður það tengt við ímyndir konunnar á hvíta tjaldinu. Sérstakri athygli verður beint að því hvernig ímynd móður og fæðingarmyndmálið hefur verið tengt kenningum Julie Kristevu um Úrkastið og gert þannig ógeðfellt. Sjónum verður svo beint að spurningunni hvort að þróun hafi átt sér stað í vísindamyndum og hvort að kenningar Mulvey og fleiri séu því orðnar með því úreltar.

Ingi Þ. ÓskarssonVersta. Ritgerð. Ever. Textatengsl í The Simpsons

Ritgerð þessi fjallar um sjónvarpsþáttinn The Simpsons og í henni er skoðað hvernig textatengsl birtast í þættinum. Þátturinn hefur notið gríðarlegra vinsælda allt frá því að hann var fyrst frumsýndur árið 1989, og ekki síst vegna þess hve virkur hann er í því að vekja upp tengsl við aðra texta. Í fyrsta kafla ritgerðarinnar er hugtakið textatengsl skoðað. Sagt er frá sögu hugtaksins í örstuttu máli, og fimm tegundir textatengsla sem fræðimaðurinn Gerard Genette setti fram eru útskýrð. Þá er einnig sérstaklega talað um skopstælingu og ádeilu, sem eru hvort tveggja birtingarmynd textatengsla. 
Í öðrum hluta ritgerðarinnar er talað um sjónvarpsþáttaformið. Fyrst er fjallað stuttlega um framsetningu sjónvarpsþátta með auglýsingar til hliðsjónar, og svo er fjallað um gamanþáttaformið, og hvernig The Simpsons notar hefðina til að skapa sérstöðu. Sérstaklega er talað um hvernig sú staðreynd að The Simpsons er teiknaður þáttur hefur áhrif á framsetninguna, og hvernig það gerir það að verkum að auðveldara er fyrir þáttinn að skopstæla aðrar hefðir. Í fjórða hluta er viðfangið tvennskonar. Fyrst er skoðað hvernig  aðstandendur þáttanna hafa beitt textatengslum til þess að skapa ímynd þáttarins, og þá sérstaklega í ljósi þess hvernig þátturinn kýs að leggja áherslu á hlutverk Matt Groening sem skapara þáttarins. Eftir það eru svo þrír þættir greindir með textatengsl til hliðsjónar. „Cape Feare“ er skopstæling af kvikmyndinni Cape Fear eftir Martin Scorsese, og eru tengsl þáttarins við myndina skoðuð, auk þess sem vakin verður athygli á hvernig svokallaðir innrömmunartextar geta haft áhrif á áhorfið. í „Homer‘s Enemy“ lítur þátturinn inn á við og skopstælir á ákveðinn hátt sjálfan sig, og í „Sideshow Bob Roberts“ er skoðað hvernig þátturinn notar menningarvitund áhorfandans og utanaðkomandi texta sem pólitísk verkfæri til að grafa undan trúverðugleika annara texta. 

Friðrik Már JenssonGramsað í Pasolini: Þrjár myndir Pier Paolo Pasolini í ljósi kenninga Antonio Gramsci

Í þessari ritgerð verður fjallað um ítalska kvikmyndaleikstjóran Pier Paolo Pasolini og samband hans við fræðimannin og samlanda Antonio Gramsci. Áhersla verðu lögð á að sýna fram á hvernig skrif Gramsci og kenningar birtast í þremur af kvikmyndum Pasolini. Í upphafi verður gert grein fyrir bakgrunni þeirra beggja í stuttu máli en þar er þar er fyrirferðamest lýsing á helstu kenningu Gramsci og eiginleikum hennar. Sú kenning sem um ræðir byggist á menningarlegu forræði og tekst á við það hvernig ein stétt getur viðhaldið forræði yfir öðrum, meðal annars í gegnum menningarstofnanir. Ritgerðinni er skipt í sex kafla; inngang, bakgrunn og kenningakafla, þrjá greiningarkafla og niðurstöðu. Þær myndir sem teknar verða fyrir í greiningarköflunum eru Accattone (1961), Teorema (1968) og Salò o le 120 giornate di Sodoma (1975). Með valinu var reynt að skapa sneiðmynd af höfundaverki Pasolini en sjö ár líða á milli framleiðslu hverrrar fyrir sig. Sá heimur sem birtist innan þessara mynda er ansi ólíkur en sýnt verður fram á hvernig kenningar Gramsci birtast á ýmsa vegu í frásögn myndanna. Í stuttu máli væri hægt að draga saman greininguna á myndunum þremur saman á þennan hátt: Í Accattone má sjá áhrif menningarlegs forræðis borgarastéttarinnar á lágstéttina. Teorema sýnir afleiðingar menningarlegs forræðis lágstéttarinnar á borgarastéttina og vandamálin sem skapast þegar framleiðslutækin eru færð í hendur verkamannastéttarinar og Saló setur fram ýkta mynd af forræði borgarastéttarinnar þar sem sósíalismi á sér engan samastað. Við greininguna verða nýttar fræðilegar heimildir á borð við yfirlitsrit Robert Simon um Gramsci: „Gramsci’s Political Thought: An Introduction“ og bók Naomi Greene um Pasolini: „Pier Paolo Pasolini: Cinema as Heresy“

Salvör BergmanOf Rats and Men: How Willard Exemplifies the Fallacy in Polarized Understandings of the Categories of Man and Animal

This essay provides an in-depth analysis of Glen Morgan’s 2003 film Willard in relation to an exploration of the issue of polarities, in particular those that separate man and animal. To analyse how the film not only displays said polarities, but subsequently showcases them as residing in fallacy, the categories of man and animal must at first be somewhat adhered to, where the human and animal characters of the film are recognized as originally residing in their separate spheres. It is then scrutinized how those characters exit these spheres, as well as how the spheres themselves seem to hybridize and intermingle. The essay consists of five segments; a foreword, three theoretical and analytical chapters, and a conclusion. The first chapter, “Man becomes Animal”, introduces Gilles Deleuze and Félix Guattari’s hypothesis of “becoming-animal” as a recurring focal point of reference throughout the analysis. It also explores film critic Robin Wood’s basic formula of horror in relation to the effect of a man and an animal being doubles. In addition of making use of animal studies alongside general film studies, the essay also utilizes studies of humanistic geography, as the chapter also includes Chris Wilbert’s workings with philosopher Karen Barad’s term “intra-action”. The second chapter, “Animal Becomes Man”, explores animal agency in film, making use of Jonathan Burt’s book Animals in Film. The issue of anthropomorphism is visited, which appropriates Sandra D. Mitchell’s essay on the matter. The nature of pet-keeping is also looked at, making use of humanistic geographer Yi-Fu Tuan’s book on the subject. The third and final chapter, “Of Rats and Men”, with great help of Jonathan Burt’s book Rat, looks more generally to the representation of the film’s species, their superfluous relationship, and the matter of their separate spheres, concluding what it is that divides, and subsequently joins, rats and men.

Anton GuðjónssonOfurhetjukvikmyndir DC Comics og Marvel: Goðsagnarfrásögn og trúarminni

Í þessari ritgerð er fjallað um goðsagnarfrásögn og trúarminni í ofurhetjukvikmyndum DC Comics og Marvel. Sérstaklega eru greindar þrjár myndir: The Dark Knight Rises (Christopher Nolan, 2012), X-Men Origins: Wolverine (Gavin Hood, 2009) og Thor (Kenneth Branagh, 2011). Ritgerðin skiptist í fjóra meginkafla sem innihalda aukakafla. 
Fyrsti kaflinn er tvískiptur inngangur. „Í upphafi skal endinn skoða“ heitir sá fyrri og staðsetur ofurhetjukvikmyndina fræðilega og menningarlega. Seinni hlutinn ber nafnið „Kvikmyndirnar“ og lýsir atburðarás kvikmyndanna og skiptir máli í greiningunni á næstu blaðsíðum. Annar kafli ritgerðarinnar, „Lögmál frásagnar í hasarmyndum“ er fyrri hluti meginmálsins og hefst með kynningu á þeirri frásagnarfræði sem unnið er með í greiningu kaflans. Stuðst er við grein Heiðu Jóhannsdóttur, „Frásagnarfræði hasarmynda“, frá árinu 1999. Upp úr henni eru unnar þrjár töflur þar sem helstu goðsagnarlegu frásagnar einkenni hasarmynda 9. og 10. áratugs síðustu aldar eru nefnd og skoðað er hvort og hvernig þau birtast í myndunum þremur. Undirkaflarnir eru skipting á þeim atriðum taflanna sem skoðuð eru: „Liður 1“, „Liðir 2-7“, „Liðir 8-15“ og „Liðir 16-23“. Seinni hluti meginmálsins er þriðji kafli ritgerðarinnar. „Trú í ofurhetjukvikmyndum“ líkt og fyrri meginmálskaflinn byrjar á kynningu á þeim fræðum sem unnið er með. Þar er nefnd sú trúarlega greining sem á sér stað í bíómyndum og þá sérstaklega í ofurhetjumyndum. Aðallega eru það trúarleg stef sem eru greind og sérstaklega er tekið fram kristsgervinga sem unnið verður með í þremur undirköflum. Þeir fjalla um trúarminni í kvikmyndunum þremur sem greindar voru í tengslum við goðsagnarfrásögn í síðasta kafla. Síðasti kafli ritgerðarinnar heitir „Lokaorð“ og lýsir niðurstöðum greiningarinnar stuttlega. Í ljós kemur að því fleiri frásagnaratriði sem eru eins í ofurhetjukvikmyndum og hasarmyndum, því trúarmiðaðari er frásögn þessara mynda. The Dark Knight Rises er sú mynd sem er næst því að vera eins og hasarmyndirnar í frásagnargreiningu Heiðu. Mynd Nolans er eins og þær í öllum liðum nema einum. Í seinni hluta meginmálsins kemur í ljós að trúarminni spila stærst hlutverk í myndinni um Batman af þeim sem greindar eru. X-Men Origins: Wolverine er sú mynd sem hefur næst flestar tengingar við goðsagnarfrásögn hasarmynda og eru trúarlegu stefin þar næst mest áberandi. Thor sker sig úr og er ekki eins lík hasarmyndunum í frásögn og hinar tvær. Trúarstef í frásögn eru þar heldur ekki eins fyrirferðamikil fyrir utan nokkur atriði sem liggja grunnt á yfirborðinu.

Stefán Hannesson: „Ég man þá daga.“ Sjálfsævisögulega kvikmyndin sem undirgrein

Í þessari ritgerð verður fjallað um sjálfsævisögulega kvikmyndagerð sem undirgrein. Ýmsar leiðir verða farnar til að skoða þetta viðfangsefni. Í fyrsta lagi verður sjálfsævisagan sem bókmenntagrein skoðuð með það í huga að bera saman einkenni hennar við þá ólíku eiginleika sem kvikmyndamiðillinn býður upp á. Um leið verður reynt að komast að því hvaða vandamál skjóta upp kollinum þegar kemur að því að notast við kvikmyndaformið til að miðla sjálfsævisögu. Ritgerðinni er skipt í fjóra hluta; inngang, þrjá greiningarhluta og lokaorð. Í fyrsta greiningarhlutanum verður fjallað um greinafræðina í þeim tilgangi að hafa hana til hliðsjónar þegar kemur að því að skilgreinar sjálfsævisögulegu kvikmyndina sem undirgrein. Í öðrum greiningarhlutanum verður fjallað um sjálfsævisöguna sem bókmenntaform annars vegar og kvikmyndaform hins vegar. Í fyrsta lagi verður fjallað um greinina „Eye for I: Making and Unmaking Autobiography in Film“ eftir Elizabeth W. Bruss, þar sem fjallað er um sjálfsævisögulega kvikmyndagerð með bókmenntir til hliðsjónar. Í stuttu máli kemst Bruss að þeirri niðurstöðu að ekki sé hægt að miðla sjálfsævisögu í kvikmynd á sama hátt og gert er í bókum. Sem andsvar við þeirri grein verður litið á greinina „To Act or to Perform: Distinguishing Filmic Autobiography“ eftir Nadja Gernalzick, en hún telur að sjálfsævisöguleg kvikmyndagerð sé ekki bara gerleg heldur líka viðurkennd kvikmyndagrein. Notast verður við skilgreiningar Gernalzick til að fjalla um tvo meginflokka sjálfsævisögulegu kvikmyndarinnar, en það eru sjálfsævisögulega skáldaða kvikmyndin og kvikmyndalega sjálfsævisagan. Í þriðja greiningarhlutanum verða þrjár kvikmyndir teknar fyrir; Amarcord (1973, Federico Fellini), Radio Days (1987, Woody Allen) og Bíódagar (1994, Friðrik Þór Friðriksson). Þessar myndir eiga það allar sameiginlegt að vera byggðar á endurminningum leikstjóranna og verða þær skoðaðar nánar með þá staðreynd að leiðarljósi. Litið verður sérstaklega á þá eiginleika sem þær eiga sameiginlega og þannig reynt að komast því hvað einkenni sjálfsævisögulegu skálduðu kvikmyndina sem undirgrein. 

Kristín Lilja Thorlacius BjörnsdóttirVestur með vísindamyndina: Áhrif greinablöndunar í Firefly og Serenity

Í þessari ritgerð verða sjónvarpsþættirnir Firefly (2002, höf. Joss Whedon) og kvikmyndin Serenity (2005, Joss Whedon) skoðuð í ljósi greinafræðinnar. Einblínt verður á einkenni vestrans og vísindamyndarinnar og blöndun þeirra. Leitast verður við að komast að því hvaða tilgangi það þjónar að frásögnin sé sett fram innan þessara tveggja greina og þá sérstaklega í ljósi þess hvernig efnið vinnur með tráma Bandaríkjanna í kjölfar árásanna 11. september 2001. Stuðst verður við kenningar Rick Altmans um merkingarfræðilega og setningafræðilega greiningu kvikmyndagreina. Ritgerðinni er skipt í fimm hluta; inngang, fræðilegan bakgrunn, tvo greiningarkafla og lokaorð. Í fyrri greiningarkaflanum verða merkingarfræðileg einkenni vestrans og vísindamyndarinnar í þáttunum dregin fram á sjónarsviðið. Skoðuð verða sjónræn einkenni hvorrar kvikmyndagreinarinnar fyrir sig eins og þau birtast í þáttunum og kvikmyndinni og þau sett í samhengi við aðrar kvikmyndir sem eru dæmigerðar fyrir hvora grein. Í seinni greiningarkaflanum verður kafað undir það yfirborð sem skoðað er í fyrri greiningarkaflanum. Stuðst verður við strúktúralíska greiningu Will Wright á klassíska kvikmyndavestranum til að draga fram hvað er frábrugðið frá þessum klassísku stefjum í Firefly og Serenity. Í kjölfarið verður rýnt í það hvernig þættirnir bregðast við fyrrgreindu tráma bandarísku þjóðarinnar í kjölfar árásanna 11. september 2001 með því að snúa út úr þessum stefjum. Auk þess verður rýnt í það hvaða áhrif það skapar að sjónarhorn frásagnarinnar sé hjá áhöfn geimskipsins Serenity í stað ofurafls sólkerfisins þá sérstaklega í sambandi við það hvernig unnið er með augljósar tengingar við Star Trek heiminn.

Rúnar Bergman Gunnlaugsson„Augu mín eru opin.“ Feðraveldi, neyslumenning og kynjaímyndir í Fight Club

Kristín Henný MoritzHáðheimildamyndir. Samanburður við form heimildamynda, staða kvikmyndagerðamannsins og almenn umfjöllun

Upphaf heimildamynda (e. documentary) má rekja allt aftur til upphaf kvikmyndagerðar. Háðheimildamyndir (e. mockumentary) eru uppspunnar heimildir kvikmyndaðar og settar fram í formi heimilda. Háðheimildamyndir er náskyldar heimildamyndum og hægt er að yfirfæra þær yfir á form og flokkun heimildamynda samkvæmt kenningum kvikmyndafræðingsins Bill Nichols. Í þessari ritgerð rýni ég í tilgang háðheimildamynda, stöðu kvikmyndagerðamanns kvikmyndanna og þær undirgreinar kvikmyndafræðinnar sem þær tilheyra. Ítarleg umföllun er um raunverulegt sannleiksgildi heimildamynda og hvort að einhver heimildamynd gætir fullkomins hlutleysis. Flestar háðheimildamyndir innihalda undirliggjandi boðskap og tilgang sem aðeins sést ef rýnt er í kvikmyndirnar og þennan undirliggjandi boðskap tek ég til umfjöllunar og greiningar. Heimildamyndir eru líkt og etnógrafía mannfræðinga fest á filmu. Undirbúningur heimildamyndar er vettvangsrannsókn og öll þau myndbrot sem kvikmyndagerðamaðurinn safnar saman er vinnubók hans og lokaniðurstaðan er etnógrafían. Þær kvikmyndir sem ég nýti mér til greiningar og umfjöllunar um form háðheimildamynda eru kvikmyndirnar Borat: Cultural Learnings of America for Make Benefit Glorious Nation of Kazakstan (2006, Charles), This is Spinal Tap (1984, Reiner, Guest, McKean og Shearer) og Paranormal Activity (2007, Peli). Allar þessar kvikmyndir njóta ákveðinni sérstöðu innan flokki háðheimildamynda.

Ólafur Ingvi ÓlasonHvað ætlar þú að verða? Slæpingjamyndin sem undirgrein

Í þessari ritgerð verður leitast við að skilgreina slæpingjamyndina (e. slacker film) sem undirgrein. Stuðst verður við kenningar Alan Williams til þess að búa til þrjá hringi sem verkfæri til þessarar greiningar. Fyrsti hringurinn afmarkar forsögu slæpingjamyndarinnar. Annar hringurinn rúmar svo slæpingjamyndina innan hefðbundins framleiðslukerfis. Að lokum afmarkar innsti hringurinn slæpingjamyndir utan hefðbundins framleiðslukerfis. Markmiðið er að athuga hvernig hefðin fyrir slæpingjamyndinni byggðist upp með því að skoða söguna og rýna svo í kvikmyndir með það að leiðarljósi að greina slæpingjamyndina. Þá verða slæpingjamyndir framleiddar innan hefðbundis framleiðslukerfis bornar saman við þær sem eru framleiddar utan þess. Ritgerðinni er skipt í fimm hluta; inngang, þrjá greiningarkafla og lokaorð. Í fyrsta greiningarkaflanum verður fyrsti afmörkunarhringur greiningarinnar skoðaður. Kvikmyndirnar Rebel Without a Cause (1955, Nicholas Ray) og Animal House (1978, John Landis) verða síðan greindar út frá hluta þeirra í forsögu slæpingjamyndarinnar. Þá verða tengsl hippamenningar sjöunda áratugarins við hugmyndafræði slæpingjans skoðuð. Annar greiningarkaflinn snýr að slæpingjamyndum sem framleiddar eru að miklu leyti innan hefðbundins framleiðslukerfis; öðrum afmörkunarhring greinarinnar. Kvikmyndirnar Say Anything… (1989, Cameron Crowe) og Reality Bites (1994, Ben Stiller) verða greindar út frá framsetningu þeirra á slæpingjanum og hugmyndafræði hans athuguð. Þá verður stigs munur á framsetningu þeirra skoðaður. 
Að lokum verða kvikmyndir sem endurspegla hugmyndafræði slæpingjans í efnistökum sem og framleiðslu teknar fyrir í þriðja og síðasta kaflanum. Kvikmyndirnar Slacker (1991, Richard Linklater) og Clerks (1994, Kevin Smith) verða teknar fyrir og rýnt í umfjöllun þeirra um slæpingjann, auk þess sem rýnt verður í hugmyndafræði, framleiðslu og viðtökur myndanna.

Sverrir Sigfússon: Noir Guilt Complex. The Death of Women as a Catalyst for Character Development and Plot in the Films of Christopher Nolan

This essay provides a feminist analysis of Christopher Nolan’s films; examining the complicate role of women in relation to the guilt-ridden protagonists, with their deaths serving as a foundation for the narrative trajectory of the male characters, and how this conveys messages to the audience that propagate the prevailing patriarchal worldview. Nolan actively blends disparate genres, infusing them with film noir influences that predicate his use of this recurrent theme. Arguments will be supported by source material from E. Ann Kaplan, Janey Place, Christine Gledhill, Edward Dimendberg, Richard Armstrong, and Sylvia Harvey, as well as a varied assortment of articles, interviews, and profiles written about Christopher Nolan and his films, along with further material relating to film noir. The essay is split into five segments; an introduction, two theoretical chapters, an analytical chapter split into four sub-chapters, and final words. The first theoretical chapter establishes the traits of film noir and the roles of women in noir films. The second theoretical chapter provides a short biography of Christopher Nolan and then connects his films to the previously established film noir, as well as detailing its revival as neo-noir. In the analytical chapter four films will be examined: Memento (2000), The Prestige (2006), The Dark Knight (2008), and Inception (2010). The analysis, conducted from a feminist criticism point of view and in a film noir context, will focus on the women in the films and their relationships with the psychologically shattered male protagonists, which leave them dead en masse. To supplement the exploration of this recurrent theme, instances of intertextuality within Nolan’s work will also be noted.

Hrund ÖlmudóttirTransfólk í kvikmyndum: Kynjafræðileg greining á birtingarmyndum transfólks

Viðfangsefni þessarar ritgerðar er birtingamynd transfólks í kvikmyndum. Transfólk hefur almennt séð ekki verið algengt viðfangsefni í kvikmyndum en sýnileiki þeirra, bæði í samfélaginu og í alskyns miðlum, hefur verið að aukast á síðustu árum. Í ritgerðinni verður lögð áhersla á kvikmyndir með transfólki í aðalhlutverki, þar sem að transkarlinn/konan er leikin af leikara af sama kyni og upphaflegt líffræðilegt kyn transmanneskjunnar var. Kvikmyndirnar sem greindar eru tilheyra allar ólíkum kvikmyndagreinum, auk þess sem þær eru allar frá ólíkum löndum. Kvikmyndirnar sem teknar eru fyrir eru: Breakfast on Pluto (2005, Neil Jordan), dramatísk gamanmynd frá Írlandi, Boys Don’t Cry (1999, Kimberly Pierce) sem er dramamynd frá Bandaríkjunum og The Adventures of Priscilla, Queen of the Desert (1994, Stephen Elliot), dramatísk gamanmynd í camp stíl frá Ástralíu. Markmið ritgerðarinnar er að skoða hvernig transfólk er sýnt í kvikmyndum í tengslum við hugmyndir um kyngervi. Kvikmyndirnar eru bæði greindar út frá fræðigreinum úr kynjafræðinni og kvikmyndafræðinni. Stuðst er við kenningar R. W. Connell um stigveldi karlmennskunnar úr bókinni Masculinities sem og grein Mimi Schippers, „Rocovering the Feminine Other,“ þar sem hún vinnur upp úr hugmyndum Connell til að búa til kenningu um stigveldi kvenleikans. Einnig verður grein Lauru Mulvey, „Sjónræn nautn og frásagnarkvikmyndin“, sem rýnir í það hvernig konur eru hlutgerðar af kvikmyndamiðlinum, notuð til þess að greina það hvernig transfólkið er kvikmyndað. Skoðað er hvernig transfólkið er túlkað í kvikmyndunum og hvernig kyngervi þess birtist. Í Breakfast on Pluto og The Adventures of Priscilla eru transkonurnar teknar fyrir út frá hugmyndum um styðjandi kvenleika og í Boys Don’t Cry er transkarl skoðaður út frá hugmyndum um samseka karlmennsku. Í öllum kvikmyndunum er síðan skoðað hvernig transfólkið er kvikmyndað; transkonurnar eru aðallega kvikmyndaðar eins og konur en transkarlinn er fyrst kvikmyndaður líkt og karlmaður en síðar í myndinni eins og kona. Einnig er leitast við að tengja The Adventures of Priscilla við kenningar Susan Sontag og Jack Babuscio um stílbragðið camp til þess að staðsetja myndina innan hinseginfræðinnar.