KENNARAR

Bjarni Randver Sigurvinsson  er stundakennari í trúarbragðafræði við Háskóla Íslands og vinnur í tímabundnum sérverkefnum hjá Trúarbragðafræðistofu Hugvísindasviðs. Hann er guðfræðingur og trúarbragðafræðingur frá þeim sama skóla og vinnur að doktorsritgerð á því sviði. Bjarni hefur skrifað fjölda greina og bóka á sviði guðfræði, trúarbragðafræði og kvikmyndafræði og er m.a. meðritstjóri að bókinni Guð á hvíta tjaldinu: Trúar- og biblíustef í kvikmyndum sem gefin er út af Háskólaútgáfunni. Jafnframt hefur hann unnið til fjölda ára að þvertrúarlegum málefnum á vettvangi m.a. Samráðsvettvangs trúfélaga á Íslandi. Rannsóknarsvið hans er trúarbragðafræði, trúarlífsfélagsfræði, trúarlegir minnihlutahópar, nýtrúarhreyfingar og kvikmyndafræði.

Björn Þór Vilhjálmsson er lektor í almennri bókmenntafræði og kvikmyndafræði við Háskóla Íslands, og greinaformaður í síðarnefndu greininni. Hann lauk doktorsprófi í gagnrýnni bókmennta– og kvikmyndafræði frá Háskólanum í Madison, Wisconsin í Bandaríkjunum, þar sem hann var Fulbright styrkþegi. Meistaragráðu í bókmenntafræði lauk Björn frá sama háskóla. Björn hefur birt fjölda greina á ritrýndum vettvangi um kvikmyndir og bókmenntir. Rannsóknarsvið hans eru skjámenning, nýmiðlar, bókmennta– og kvikmyndakenningar, íslensk kvikmyndasaga, leikhúsfræði og leikjafræði.

Guðni Elísson er prófessor í almennri bókmenntafræði. Rannsóknarsvið hans eru rómantíska stefnan í bókmenntum, íslensk nýrómantík, kvikmyndakenningar, greinafræði, aðlaganafræði, hrollvekjur og rökkurmyndir. Hann hefur jafnframt skrifað um umhverfis- og loftslagsmál í dagblöð og tímarit.

Gunnar Theodór Eggertsson lauk BA-prófi í almennri bókmenntafræði frá Háskóla Íslands árið 2005 með listfræði sem aukagrein. Því næst tók við MA-nám í kvikmyndafræði við Háskólann í Amsterdam, þar sem Gunnar skrifaði lokaritgerð sem tengdi tvö helstu áhugasvið hans: ofbeldisfullar hryllingsmyndir og framsetningu dýra í samtímamenningu. Síðasta áratug hefur Gunnar sérhæft sig í nýlegu fagi sem kallast á ensku "animal studies" og snýr að sambandi mannfólks við aðrar dýrategundir m.a. út frá menningarfræði, siðfræði, heimspeki og náttúruvísindum. Hann lauk doktorsgráðu í almennri bókmenntafræði frá Háskóla Íslands um dýrasögur sem bókmenntaform, í dýrafræðilegu og siðfræðilegu samhengi, en hefur samhliða doktorsnáminu skoðað dýr í kvikmyndum, myndlist, tölvuleikjum og öðrum miðlum. Kjarninn í nálgun Gunnars er að skoða hvernig menningin mótar hugmyndir okkar um önnur dýr og að velta upp togstreitu og þversögnum sem einkenna samband okkar við aðrar tegundir. Gunnar Theodór hefur jafnframt gegnt hlutverki kvikmyndarýnis hjá Víðsjá og Lestinni á Rás 1 síðan 2013 og skrifað þrjár barna- og ungmennabækur, með fjórðu á leiðinni. Hann hlaut Íslensku barnabókaverðlaunin árið 2008 og var tilnefndur til Íslensku bókmenntaverðlaunana í flokki barna- og ungmennabóka árið 2015.

Gunnar Tómas Kristófersson er doktorsnemi í almennri bókmenntafræði við Íslensku- og menningardeild Háskóla Íslands og stundakennari í kvikmyndafræði við sömu deild. Eftir að hafa einbeitt sér að költmyndum í meistaranáminu fjallar doktorsverkefnið um íslenskar kvikmyndir og koma því sérsviðin úr nokkuð ólíkum áttum; annars vegar úr einkennilegum iðrum aðdáendamenningar og viðtökufræða og hins vegar úr heimahögunum, iðagrænum og fallegum. Gunnar stundaði einnig nám í Þýskalandi, þar sem hann hefur verið búsettur í hartnær áratug, og liggur því áhuga- og sérsvið hans einnig um þýskar grundir og að lokum um þýðingar á kvikmyndum – sér í lagi um þann sið að talsetja kvikmyndir, líkt og tíðkast í Þýskalandi. Gunnar hefur skrifað fjölda pistla og greina um kvikmyndir fyrir útvarp og ritmiðla og í smíðum eru greinar um íslenska kvikmyndasögu og -menningu.

Hjalti Snær Ægisson er doktorsnemi í almennri bókmenntafræði við Háskóla Íslands. Rannsóknarverkefni hans fjallar um miðaldaævintýri í norrænum þýðingum. Hjalti Snær hefur starfað við stundakennslu, ritstjórn, bókmenntagagnrýni og þýðingar undanfarin ár. Sérsvið hans eru latína, ítalska, bókmenntasaga og kvikmyndasaga.

Kjartan Már Ómarsson  er stundakennari og doktorsnemi við hugvísindasvið Háskóla Íslands. Rannsóknarverkefni hans fjallar um kvikmyndir íslenska leikstjórans Baltasars Kormáks. Megináherslur eru á frásagnarfræðilega endursköpun Baltasars á íslensku kvikmyndinni eins og hún er skilgreind með hliðsjón af alþjóðlegum kvikmyndastraumum, en fræðilegar forsendur eru kenningar í greinafræðum og skilgreiningar á heimsbíóinu. Rannsóknarsvið hans rúmar m.a. íslenskar samtímakvikmyndir, greinafræði og kvikmyndakenningar.

Lára Marteinsdóttir er á þriðja og síðasta ári í doktorsnámi við deild erlendra tungumála í Háskóla Íslands. Hún hefur kennt kvikmyndafræði og kvikmyndagerð við Listaháskóla Íslands, Myndlistaskólann í Reykjavík og Kvikmyndaskóla Íslands, og kvikmyndafræði í Háskóla Íslands. Rannsóknarsvið hennar eru kvikmynda-aðlaganir, gullaldar glæpasagnahöfundar, femínískar og hinsegin kvikmyndakenningar og -bókmenntafræði. Áhugi Láru á kvikmyndum vaknaði snemma. Hún byrjaði að filma á súper-átta kvikmyndatökuvél 12 ára gömul og var m.a. fulltrúi í Fjalakettinum fyrir hönd Menntaskólans við Sund. Í lok níunda áratugarins tók hún aftur upp þráðinn ásamt tökuvélinni, gerði nokkrar stuttmyndir og tónlistamyndbönd áður en hún lagði í frekara nám í kvikmyndagerð og kvikmyndafræði á vesturströnd Bandaríkjann. Þaðan lauk hún meistaranámi í kvikmyndagerð frá California Institute of Art, Los Angeles. Útskriftarmynd hennar Starring: Rosa Furr, var gerð í anda þöglu myndanna, fór víða á kvikmyndahátíðir og var tekin til dreifingar í BNA og Kanada 2001, var m.a. sýnd í The Museum of Modern Art (MoMA) í New York 2006. Áhugasvið Láru er víðfemt og nær yfir fjölmargar kvikmyndagreinar og -svið, allt frá framúrstefnu- og tilraunakvikmyndum yfir í Hollywood, Evrópu-skólann og rússneskar kvikmyndir, með sérstökum áherslum á femínisma, hinsegin fræði og sálgreiningu.