Reglur um BA-ritgerðir á Hugvísindasviði


Innritun: Nemendum ber að innrita sig sérstaklega til samningar lokaritgerðar til BA-prófs og gilda sömu reglur um úrsögn og um önnur námskeið deildarinnar.

Markmið: Nemendur skrifa lokaritgerð um rannsóknarefni að eigin vali í samráði við leiðbeinanda sinn. Lokaritgerð er ætlað að sýna hæfni nemenda til sjálfstæðra vinnubragða, til skipulegrar úrvinnslu efnis og heimilda, svo og til notkunar fræðilegra hjálpargagna. Þýðingar og textaútgáfur eru því aðeins gjaldgengar að ofangreindum kröfum sé fullnægt.

Umsjón: Nemendur velja sér einn leiðbeinanda úr hópi fastra kennara í viðkomandi grein. Leiðbeinandi skal hafa sérþekkingu á efninu og geta sagt nemendum til um efnismeðferð og fræðileg vinnubrögð. Nemendum er heimilt með samþykki námsbrautar að velja sér leiðbeinanda úr hópi annarra fastra kennara Hugvísindasviðs, sérfræðinga við stofnanir á fræðasviði deildarinnar eða stundakennara. Í samráði við leiðbeinanda getur nemandi leitað til annars aðila um fræðilega ráðgjöf. Leiðbeinandi ber eftir sem áður ábyrgð á fræðilegum vinnubrögðum og frágangi ritgerðar. Hlutverk leiðbeinanda er einkum að aðstoða nemanda við afmörkun efnis í upphafi og síðan að fylgjast með framvindu þess eftir því sem ástæða þykir til. Ekki síðar en mánuði fyrir skiladag á nemandi að hafa skilað leiðbeinanda heildaruppkasti að ritgerðinni, sem kennari fer vandlega yfir og gerir rækilegar athugasemdir við. Um frekari leiðbeiningar fer eftir samkomulagi kennara og nemanda. Ágreiningi um val á verkefni eða umsjón skal vísa til námsbrautar.

Vægi: BA-ritgerðir eru metnar til 10 eða 20 eininga. BA-ritgerð til 20 eininga skal að jafnaði vera um helmingi lengri og viðameiri en 10 eininga ritgerð. Gert er ráð fyrir að tvær einingar svari til einnar viku vinnu.

Lengd og frágangur: Lokaritgerð til 10 eininga skal vera um 8.000-10.000 orð (um 20-30 bls. miðað við að um 400 orð séu að jafnaði á síðu). Ritgerðin skal vera tölvuunnin og prentuð út með skýru og læsilegu letri. Henni skal skila á A4-síðum með 3 sm spássíu á hvorn veg og með hæfilegu línubili, heftri saman og í kápu. Ritgerðin skal bera sérstakt titilblað með nafni höfundar og kennitölu, heiti verkefnis, nafni leiðbeinanda, námsgreinar, sviðs og skóla, skilamánuði og ári. Framan á kápu nægir að nefna höfund, heiti verkefnis, svið og skóla. Einnig skal standa á kápu og titilblaði að um lokaritgerð til viðkomandi prófs sé að ræða. Á eftir titilblaði skal fara örstutt ágrip (um 300 orð) þar sem efni ritgerðar er lýst. Þar á eftir kemur sundurliðað efnisyfirlit. Í lok ritgerðar skal vera heimildaskrá. Ritgerðir í erlendum tungumálum fara þó eftir venjum viðkomandi málsamfélags.

Framsetning, málfar og stafsetning: Ritgerðir skulu skipulagðar á röklegan hátt, með skýrri framsetningu, inngangi og niðurstöðu. Mikilvægt er að ritgerð sé skrifuð á góðu máli og valið sé málsnið sem hæfi efninu. Ritgerðir í erlendum málum skulu skrifaðar á viðkomandi tungumáli. Stafsetning skal vera viðurkennd (opinber) stafsetning þess máls sem skrifað er á.

Heimildaskrá: Grundvallarkrafa í allri fræðimennsku er virðing fyrir heimildum og skulu höfundar lokaritgerða undantekningalaust geta þeirra heimilda sem þeir nota. Við gerð heimildaskrár skal farið eftir viðurkenndum reglum.

Skilafrestur: Afhenda skal lokaritgerð fullfrágengna í tveimur eintökum, ásamt stafestingu á skemmuskilum og ljósriti af forsíðu til skrifstofu Hugvísindasviðs eigi síðar en 10. maí fyrir brautskráningu að vori, 10. september fyrir brautskráningu að hausti og 20. janúar fyrir brautskráningu að vetri. Ef skiladag ber upp á helgi eða frídag skal ritgerðinni skilað næsta virkan dag á eftir. Einkunn skal skilað til skrifstofu eigi síðar en þremur vikum fyrir brautskráningu.

Skemman: Skila þarf rafrænu eintaki af ritgerðinni til Landsbókasafns Íslands – Háskólabókasafns. Sjá leiðbeiningar og eyðublað um ráðstöfun ritgerðarinnar á skemman.is.

Yfirlestur: Allar BA-ritgerðir á Hugvísindasviði eru lesnar yfir af sérfræðingi í viðkomandi fræðigrein. Yfirlesarinn gengur úr skugga um að vel sé staðið að helstu verkþáttum ritgerðarinnar, svo sem rannsóknarspurningu, afmörkun efnis, aðferð og frágangi heimilda. Hann gætir þess að samræmi sé í inngangi og niðurlagi ritgerðarinnar og að lengdarmörkin séu virt. Yfirlesari á að tryggja að faglega sé staðið að mati ritgerðarinnar, enda er það þá ekki leiðbeinandans eins að leggja mat á hana, þó að hann sé ábyrgur fyrir endanlegri niðurstöðu námsmatsins.

Reglur um höfundarrétt: Háskóla Íslands skal heimilt að nota ritgerðir nemenda til kennslu og vísa öðrum nemendum á þær sem heimildir svo framarlega sem höfundur og leiðbeinandi taki ekki annað fram. Óheimilt er þó að vitna til ritgerðanna eða nýta sér efni úr þeim í ritum sem gefin eru út fjölrituð eða prentuð nema fyrir liggi leyfi höfundar og leiðbeinanda. Samningur milli Hugvísindasviðs, höfundar og leiðbeinanda um hvort og hvernig megi nota ritgerðina skal liggja fyrir undirritaður fremst í ritgerðinni. Óheimilt er með öllu að nýta efni úr lokaritgerðum án þess að til þeirra sé vitnað með skýrum hætti.

Sniðmát

Eftirfarandi sniðmát á að nota fyrir titilsíður og forsíður ritgerða:

Form fyrir forsíðu.
Form fyrir titilsíðu.

Reglur um BA-ritgerðir á Hugvísindasviði

Yfirfarnar af kennslunefnd Hugvísindasviðs í apríl 2013.

Mikilvægt er að kynna sér reglur Landsbókasafns Íslands – Háskólabókasafns um rafræn skil ritgerða á skemman.is.